Sýning í Ketilhúsinu

Skráð þann 2. nóvember 2013 · Skrifað í Sýningar

Þann 2. nóvember 2013 opnaði Guðbjörg sýningu í Ketilhúsinu, sem er hluti af Sjónlistamiðstöð á Akureyri. Þar sýnir hún 13 málverk sem flest eru unnin árið 2012 og nokkur á þessu ári. Sýningin stendur til 8. desember.


View Larger Map

Níels Hafstein úr sýningarskrá

Guðbjörg Ringsted

Þegar ísaldir gengu yfir í forsögulegum tíma og mannfólkið þurfti að tína á sig spjarir, umfram það sem tíðkaðist, til þess að krókna ekki úr kulda, þá hætti það að skera í húð sína og lita hana en yfirfærði línurnar og mynstrin á yfirhafnir sínar. Í fyrstu strikaði fólk á holdrosa skinnanna sem sneri út, en þar sem liturinn vildi fölna og falla af, greip það til þess ráðs að sauma í hann þau tákn sem greindu eina kynkvísl frá annarri. Sá siður er enn við lýði hjá þjóðum sem lifa við óblíð öfl náttúrunnnar og lúta henni í auðmýkt, sýna henni virðingu og hrærast í hviku og margbreytilegu umhverfi þar sem sátt og samlyndi ríkir milli manna og dýra. Þótt hlýnað hafi í veðri síðar, víðast hvar, og menn byrjað aftur að skera sig í bak og fyrir, til að endurvekja forna siði, þá halda þeir áfram að sauma út sér til gamans, einkum þau form sem hafa dýpti merkingu og eru innvígð í menningu þeirra. Sumstaðar í nútímalífi jaðarfólks er húðflúrið komið út í öfgar, afskræmt, úrættað, en hjá einstaka smekkvísum manni vefur blóm eða slanga sig frá úlnlið að olnboga upp á öxl og nær eðlilegri tengingu við formgerð líkamans

Íslendingasögur segja frá glæsilegum ofnum og ísaumuðum dúkum sem voru tjaldaðir fyrir grófar og stórgerðar torf- og grjóthleðslur í skálum landnámsmanna, til að bægja hrolli frá bakhluta fólks er það sat álútt við langeld að orna sér á vetrum. Hefur verið heillandi sjón að sjá alla þá atburði lifna við í rómönskum stíl og fögrum náttúrulitum og hefur örvað ímyndunarafl æskunnar. Þessi dýrð hefur sjálfsagt haft einhvern svip af þeim fræga refli frá Bayeux, nærri 70 metra löngum, sem fyrst er getið árið 1077, og var annað hvort saumaður í Winchester eða Canterbury, en hann segir nákvæmlega frá innrás Normanna og orrustunni við Hastings í Englandi 1066. Þótt inntak reflanna í skálum Íslendinga hafi verið svipað í hægfara tíma, líklega sótt í Ásatrú, Völuspá og Gylfaginningu, eða herferðir víkinganna frá Noregi suður með ströndum til Írlands, Bretlandseyja og Frakklands, þá er víst að myndirnar hafa haft drjúg áhrif á handíð og myndlist þjóðarinnar fram eftir öldum. Handritin fornu vitna skýrt um þetta

Í gömlum annálum segir frá því að ungar stúlkur voru sendar í vist til hefðarkvenna að læra hannyrðir, fagurt verk í meðferð garns og vefs, fyrst ísaum, síðar prjón og hekl og vefnað. Eru þar innfelldar dýrðlegar lýsingar í fínum efnum, sem og litskrúði sem sótt var í jurtir og grös, og fengu á sig heimuglegan blæ og þokka í höndum ungmeyjanna. Allt var meðhöndlað af alúð. Er sumt til sýnis í söfnum landsmanna sem fjársjóðir og lýsa fjölskrúðugu menningarlífi, annað varðveitt í heimahúsum sem erfðagripir

Sjónabækurnar svokölluðu sem prentaðar voru í Kaupmannahöfn og fluttar til Íslands á sautjándu öld, og allt til loka nítjándu aldar, bættu í þróun listiðkunar kvenna, en þær innihéldu mikið safn mynstra og stafagerða. Fyrir nokkrum árum var gefið út stórt og þykkt rit með myndum úr þessum bókum, ásamt starfrænni framsetningu, og eru þær skapandi fólki óþrotleg lind, einkum frjóum hönnuðum og listamönnum

Þegar Guðbjörg Ringsted kom fram á sjónarsviðið með blómamyndir sínar fór ekki á milli mála að aldagömul listhefð hafði gengið í endurnýjun lífdaga. Málverk hennar eru að hluta til byggð á mynstrum á íslenska faldbúningnum og öðrum þeim klæðum sem Sigurður Guðmundsson teiknaði upp á síðari hluta nítjándu aldar. Á þeim er sá munur að Guðbjörg finnur blómum sínum nýstárlegan farveg, sem er magnður upp af persónulegu innsæi og listfengi, skarpri sýn, öryggi, nákvæmni og öguðu handbragði. Málverk hennar eru ekki skrautfylling samkvæmt nákvæmri úttaldri fyrirsögn á spjaldi, heldur sjálfstæðar lífrænar einingar sem styðja hver aðra og tjá einlæga ást hennar á viðfangsefninu. Í fyrstu verkunum voru blómin án lita, eins og til að undirstrika form einstakra jurtaparta, línu stilks, sveigju blaðs og íbjúga lögun rósar, en síðan tóku þau á sig bjarta liti náttúrunnar. Á meðal yngstu málverkanna er sjálfsprottin ný tilfærsla þegar eitt blóm teygir sig upp í svarthvítan eða gráan flöt, sterkt og grípandi þrátt fyrir hæversku sína, og skoðandinn fær á tilfinninguna að þetta litla djarfahuga blóm eigi eftir að sigra flötinn. Svo mikill er máttur hins smáa og sterka, þess sem vex í skugga, en brýst nú fram er minnst varir til þess að afvegaleiða augun. Á annarrri mynd hafa fínlegir blómklasar rutt litleysinu burtu, standa á miðri mynd, eins og tvær súlur, og lýsa því yfir ósjálfrátt að ekkert sé eðlilegra, þeirra tími sé kominn

Málverk Guðbjargar Ringsted styðjast við margra alda gamla fágun grunnmenntunar í listum sem á sér forsögu hjá Grikkjum, og lifandi fagurfræði næmrar skynjunar sem ávinnst aðeins í þrotlausri leit og íhugun. Þau hafa náð því stigi í tæknilegri úrvinnslu að lengra verður ekki komist án þess að hið vélræna taki við og boli burtu því sem er rétt og satt. Á því eru þó litlar líkur, viðhorf listmálarans til umhverfisins er eðlislæg hrifnæmi, reist á virðingu fyrir lífmagni tilverunnar, því sem andar í friði og vill dafna í friði. Málverk Guðbjargar eru spegilmyndir meistara síns, þau eru innhverf í umgjörð sinni, en markviss tjáning og einbeittur vilji opnar glufu í nærheim og fjarheim, jafnvel þann djúpheim sem við skynjum ósjálfrátt, kunnum ekki deili á og viljum kannski ekki skilja, hvort heldur sem sköpunin leitar inn á við til sálarinnar eða út til stjarnanna, því hún eru tileinkuð þeirri eftirvæntingu sem býr við óravíddir drauma og sjónskynjunar

Níels Hafstein