Umsögn Þóru Þórisdóttur sem birtist í Morgunblaðinu 15. september 2007.
SKRAUTLEGA formuð blómamynstur Guðbjargar Ringsted, máluð með hvítri akrílmálningu á svartan grunn í Jónas Viðar gallerí vísa í margvísleg átök sem urðu í listinni undir lok nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu. Þrátt fyrir að blómamynstur í hvers konar hönnun hafi verið algeng, ekki síst á rókókó tímabilinu, þá er það með liststefnum á borð við Art Nouvea (Nýstíll) þar sem listamenn leitast við að afnema skilin milli listar og listiðnaðar.
Guðbjörg segir að hún hafi viljað sjá þessi mynstur sem við tengjum við silfursmíði, útsaum og tréskurð í málverki og virðist þannig vísa í sömu orðræðu og nýstíllinn byggðist á sem minnir okkur á að þetta afnám skilar milli listar og listiðna náði bara að verða að veruleika upp að vissu marki í ákveðnum tilfellum.
Þrátt fyrir að málverk Guðbjargar vísi í flókna togstreitu innan listasögu síðustu aldar virðast þau ekki velta sér á nokkurn hátt upp úr meintu vandamáli. Hugmyndin og verkin eru einföld, hrein og bein og án allrar dýptar. Sem slík eru þau vel heppnuð og smellpassa inn í ríkjandi smekk samtímans á hönnun, listiðnaði og myndlist.