Laugardaginn 6. september kl. 14 opnar Guðbjörg Ringsted sýningu á málverkum í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Þetta er 30. einkasýning Guðbjargar og eru 6 ár síðan hún sýndi síðast á Dalvík. Þema málverkanna eru útsaumsmunstur af íslenska kven- þjóðbúningnum en í meðförum listakonunnar öðlast munstrin sitt eigið líf. Þau ýmist standa kyrrlát eða flögra um á myndfletinum. Frelsisþráin kemur einnig við sögu; löngunin til að slíta sig úr viðjum vanans.
Guðbjörg er fædd á Akureyri árið 1957 og útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1982, grafíkdeild. Hún er félagi í SÍM, Félaginu Íslensk grafík og Myndlistarfélaginu. Fyrstu einkasýninguna hélt hún á Akureyri fyrir 31 ári.
Sýningin í Bergi stendur til 2.október og eru allir velkomnir.